139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

uppsagnir á Herjólfi.

[10:42]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta mál hefur ekki komið formlega inn á borð í velferðarráðuneytinu, þ.e. þessar uppsagnir eða starfsmannastefnan um Herjólf hjá Eimskipum. Almennt get ég svarað því þannig að ég tek heils hugar undir það sem kemur fram hjá málshefjanda, það skiptir mjög miklu máli að menn byggi starfsmannastefnu sína á málefnalegum ástæðum þegar menn breyta til og endurraða. Þar skiptir mjög miklu máli að lagaumhverfið sé öflugt.

Þegar menn tala um að fullgilda samning Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hef ég verið fylgjandi því að við sæktum styrk í umhverfi eins og í Evrópu í mjög mörgum málum þar sem menn hafa komist lengra en við í sambandi við ýmis réttindi. Við höfum innleitt þetta hægt og bítandi á ákveðnum stöðum en því miður hefur viðskiptalífið í mörgum tilfellum haft forgang að því að innleiða ýmislegt af því sem við fáum frá Evrópu en það gleymist að ræða að margt í neytendamálum og í ýmsum réttindamálum höfum við ekki sótt af sama krafti og við þyrftum að gera til að tryggja rétt starfsmanna. Nokkur mál í þinginu snúa að þessum þáttum og núna er væntanlegur bandormur þar sem komið er inn á aðilaskipti í sambandi við fyrirtæki þar sem verið er að tryggja rétt starfsmanna, að þeir tapi ekki réttindum þegar fyrirtæki lenda í gjaldþroti, að menn geta ekki hreinsað út, lækkað laun, tekið út starfsreynslu o.fl. Allt þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Við verðum að verja réttindi starfsmanna án þess þó að takmarka um of möguleikana á því að endurskipuleggja störf fyrirtækja og annað slíkt.

Ég tek heils hugar undir þær athugasemdir sem koma frá málshefjanda um að við eigum að fara gætilega án þess að ég geti með nokkrum hætti tekið afstöðu til þessa einstaka máls um rekstur Herjólfs. Þótt ég hafi átt kost á því að vera í stjórn fyrirtækis sem rak svona ferju, Akraborgarinnar, dugir það mér ekki til að svara þeim hluta spurningarinnar.