139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:18]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka þingnefndum og öllum þeim sem hér hafa lagt fram vinnu við það að endurnýja jafnréttisáætlun til fjögurra ára. Það er rétt sem hér kemur fram, þarna er um að ræða brýningar og áminningar um að fara eftir því sem lagt hefur verið upp með. Það hefur sýnt sig í gegnum árin að það er full ástæða til að minna okkur á. Jafnréttismálin eru sífellt og stöðugt verkefni, það er ekkert sem við ljúkum á einu bretti. Það er augljóst að við eigum eftir að ljúka ákveðnum áföngum, ekki hvað síst hvað varðar launajafnrétti og eins varðandi stjórnarsetu og stjórnun í kerfinu í heild. Ég geri mér vonir um að þessi áætlun verði til þess að skerpa sýnina, hafa skýrara leiðarljós og að við munum fylgja betur eftir því sem við höfum sett í lög um jafnréttismál. Þetta er viðvarandi verkefni sem skiptir mjög miklu máli og þess vegna styð ég það heils hugar.