139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Á síðasta ári sagði fjármálaráðherra, um mikla gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á skattahækkanir ríkisstjórnarinnar, að markmiðið væri í sjálfu sér að réttlátari skattbyrði næði fram að ganga. Ég segi nú: Heyr á endemi þegar í ljós er komið að skattbyrði okkar Íslendinga, allra Íslendinga, hefur aukist stórlega og meira að segja mun meira en í þeim löndum sem eiga í hvað mestum erfiðleikum í Evrópu.

Hingað upp í pontu kemur síðan hæstv. fjármálaráðherra mjög auðmjúkur og segir einfaldlega að við skiljum þetta ekki, að í raun séu skattar enn mjög lágir hér á Íslandi. Ég held að hann eigi að segja þetta fólkinu á heimilunum, fyrirtækjunum eða einstæðu mæðrunum sem hafa hækkað langmest og eru langhæstar með mestu skattbyrði innan OECD. Þetta fólk á hæstv. fjármálaráðherra að tala við, einstæðar mæður.

Eins og Ragnar Árnason, hinn þaulreyndi hagfræðiprófessor, benti réttilega á á fundi í síðustu viku hefur íslenskt hagkerfi dregist saman um næstum 11% á síðustu þremur árum, þar af um 3,5% í fyrra. Hefði verið haldið rétt á spilunum hefði hagvöxtur þvert á móti getað orðið allt að 2% í fyrra eins og í mörgum löndum hins vestræna heims. Háir skattar, háir vextir, gjaldeyrishöft, óstöðugleiki, þjóðnýtingarumræða, árásir á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og ráðaleysi stjórnvalda í mörgum málum hefðu hins vegar gert illt verra, í raun valdið því að hagvöxtur hefði orðið 5,5% lægri en ella og landsmenn því tapað 80 milljörðum kr. eins og meðal annars kom fram í útreikningum hjá Ragnari.

Það kemur engum á óvart að skattbyrði Íslendinga hafi aukist verulega undir vinstri stjórninni. Það kemur heldur ekki á óvart að ríkisstjórnin ætli að halda áfram á sömu leið. Það er ekkert langt síðan við heyrðum: You ain't seen nothing yet.

Það verður að stoppa þessa vegferð eða eins og konan sagði við mig í gær í röðinni við kassann í Fjarðarkaupum: Það verður að stoppa þessa ríkisstjórn og það strax. (Gripið fram í.)