139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[15:42]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kom að þessu máli og vinnu nefndarinnar rétt undir blálokin og málið var meira og minna unnið undir styrkri stjórn hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur í fjarveru minni. Ræða hennar var mjög yfirgripsmikil, nefndarálitið sem liggur fyrir er ítarlegt þannig að ég vil bara fá að segja örfá orð. Ég vil í fyrsta lagi benda á hversu vel unnið frumvarpið er í heild sinni. Það væri vissulega óskandi að öll frumvörp sem berast á borð til okkar væru jafnvandlega unnin og þetta.

Eins og við öll vitum er þetta gríðarlega flókinn, vandmeðfarinn og viðkvæmur málaflokkur sem stingur beint í hjartastað allra þeirra sem að honum koma. Grunnprinsippið er og á að vera aðeins eitt gegnumgangandi í öllum ákvörðunum og allri tilhögun, það er hagur og hagsmunir barnsins. Þá er auðvitað mikilvægt að sett séu góð og vönduð lög og skýr lög, skýr ákvæði. Að því miðar frumvarpið meðal annars, að skýra og skerpa ákvæði og lögfesta þá túlkun ákvæða sem hefur fest sig í sessi. Skýrleiki skiptir máli í að eyða óvissu og leiðir til skilvirkara barnaverndarstarfs.

Í frumvarpinu eru allnokkur nýmæli eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður kom inn á. Sum þeirra eru stór, svo sem breytt verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga, önnur eru minni í sniðum og þó mjög mikilvæg. Ég ætla ekki að þylja þau upp eða endurtaka þessa yfirgripsmiklu ræðu en vil benda á nefndarálitið sem liggur fyrir og ber hinni ítarlegu vinnu nefndarinnar vitni. Breytingartillögur við frumvarpið sem komu inn síðasta haust eru í raun mjög fáar, nefndin leggur til fáar breytingar, en hún velti hins vegar mjög vandlega í allri vinnu sinni upp möguleikum á ýmsum breytingartillögum og tók umsagnir og tillögur að breytingum á frumvarpinu mjög alvarlega. Hún komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að rétt væri að gera frekar fáar breytingartillögur við frumvarpið en þó nokkrar.

Ég vil fagna þessu frumvarpi og veit og treysti því að það fái góða afgreiðslu í þinginu og þakka fyrir mjög góða samvinnu í félags- og tryggingamálanefnd, í nefndinni almennt er framúrskarandi samvinna, bæði í þessu máli og öðrum. Svo ætla ég að sjálfsögðu að þakka frábærum nefndarritara okkar og sérfræðingi, Hildi Evu Sigurðardóttur.

Nokkur mál væri auðvitað vert að ræða enn frekar. Ég vil benda sérstaklega á eitt útistandandi mál, það eru skólamál barna í tímabundnu fóstri utan lögheimilis sveitarfélags. Á því verður að taka sérstaklega annars staðar eins og framsögumaður nefndi. Ýmislegt annað kom fram í umsögnum sem nefndin beinir til velferðarráðuneytis og Barnaverndarstofu til að skoða sérstaklega í framhaldinu. Við verðum auðvitað öll að vera áfram vakandi yfir því hvernig þessi mál þróast og hver reynslan verður af lögunum. Frumvarpið er einmitt samið með hliðsjón af þeirri reynslu sem er af barnaverndarstarfi á landinu og hefur verið.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra heldur vísa ég til nefndarálitsins og yfirgripsmikillar ræðu framsögumanns og þakka gott samstarf.