139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Jú, vissulega er verið að leika sér að eldinum. En hv. flutningsmaður frumvarpsins, Helgi Hjörvar, taldi að í lagi væri að leika sér að eldinum vegna þess að svo kostnaðarsamt væri fyrir gæludýraeigendur að senda dýrin sín í einangrun.

Virðulegi forseti. Ég skil einfaldlega ekki svona rök. Það fylgir því að sjálfsögðu kostnaður að halda gæludýr á sama hátt og það fylgir því kostnaður að taka ákvörðun um að eignast barn. Þetta er bara sá kostnaður sem fylgir ef farið er með gæludýr úr landi eða ef það er flutt inn eins og þegar verið að gera ný kyn og slíkt, þetta er startkostnaðurinn sem fylgir. Þetta er nú alveg einkennileg kratavæðing.

Mig langar sérstaklega að grípa hér niður í greinargerð með frumvarpinu. Þar er farið yfir að verið sé að gera þetta sambærilegt reglum Evrópusambandsins og að gæludýravegabréfin geri einstaklingum kleift að ferðast óáreittir með gæludýr sín allt frá Íslandi til Miðjarðarhafs. Hvers vegna í ósköpunum ætti maður að vilja hafa gæludýrið sitt með í sumarleyfi ef það er ekki hjálpardýr? Fyrst verið er að opna á frjálsa för gæludýra, hvers vegna eru þá ekki strax gerðir samningar við Bandaríkin, Kanada, Asíu og aðrar heimsálfur svo ferðafrelsi Íslendinga með gæludýr sín sé ekki bundið við Evrópusambandið? Hvað gerir sjónskertur maður sem þarf að fara til Bandaríkjanna og hafa með sér blindrahund? Ekki gilda þessar reglur um hann.

Hér er því um ekta Evrópusambandsmál að ræða. Það (Forseti hringir.) sannast á þessu frumvarpi að hér er annar ríkisstjórnarflokkurinn að fara (Forseti hringir.) fram með mál sem ekki er (Forseti hringir.) meiri hluti fyrir í (Forseti hringir.) þinginu.