139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[17:40]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt að hv. þingmaður í upphafi andsvars síns ætlaði að segja að gæludýr væru líka dýr en hann sagði það því miður ekki. En gæludýr eru líka dýr rétt eins og konur eru menn. Ýmsir sjúkdómar geta borist með gæludýrum. Hv. þingmaður fór yfir það áðan í ræðu sinni og andsvari hvernig smám saman væri búið að draga úr þeim óþægindum sem gæludýraeigendur þurfa að ganga í gegnum þegar þeir flytja gæludýr til landsins. Eitt sinn þurfti að senda þau norður í Hrísey. Nú er búið að minnka þetta. Ég held einfaldlega að við séum komin á þann stað núna að ekki sé skynsamlegt að ganga lengra í þessu efni. Þar eru fleiri mér sammála. Mig langar að vitna í orð dr. Margrétar Guðnadóttur, veirufræðings og fyrrverandi prófessor í sýklafræði, en hún bendir á sem dæmi, með leyfi frú forseta:

„Karakúlfé sem var flutt hingað til lands bar með sér tvær tegundir mæðiveiki, garnaveiki og visnu, og hafði fengið stimpla frá fínustu stofnunum um heilbrigði þess. Eftir að þessar pestir voru greindar hér kom á daginn að þær voru til staðar í mildu formi á svæðum þaðan sem þessi dýr komu. Þar gerðu þær ekki usla vegna þess að stofninn hafði við þeim ónæmi. Sjúkdómarnir voru sem sagt óþekktir þar til þeir urðu að faraldri hér á landi. Hvernig á að vera hægt að gefa út heilbrigðisvottorð vegna sjúkdóma sem eru óþekktir?“

Margrét, sem er virt á þessu sviði, segir að málið sé stóralvarlegt og það verði að stoppa. Ég held að það sé ekki flókið fyrir þá sem flytja inn gæludýr og fara með gæludýr á milli landa að ganga í gegnum núverandi ferli. Við eigum ekki að ganga lengra í þessu efni.