139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir hreint út sagt ágæta ræðu og hef ekkert út á hana að setja nema kannski að skerpa á því að það eru tvær breytingar sem eru verulega miklar þessa dagana, vikurnar og mánuðina. Annars vegar er einsleitni heimsmenningarinnar. Ég kom inn í barnaherbergi í Indónesíu fyrir nokkrum árum, þá var Pókemon á fullu og barnaherbergið heima hjá mér var fullt af myndum af Pókemon og þegar ég kom inn í herbergið í Indónesíu var þar líka Pókemon. Það er komin núna stöðluð heimsmenning um allan heim og við þurfum að standa alveg sérstakan vörð um íslenska tungu í þeirri miklu þróun.

Svo er það líka að gerast að það eru að koma gífurlega mikil tækifæri fyrir einmitt þá hópa sem við erum að ræða um, mállausa og aðra, sem er þetta tæki hérna. Það er hægt að skrifa núna texta á íslensku og tækið talar á kínversku. Tækið getur hlustað á kínversku og skrifað niður á íslensku það sem sagt var. Þetta er reyndar ekki orðið fullkomið enn þá en það er óskaplega mikil þróun í þessu og í þessu sé ég mikla von fyrir þá hópa sem við erum að tala um. Þá kemur eitt sem ég vil hafa sagt. Það að segja að fólk skuli nota táknmál, það að segja að það eigi að vera lausnin gæti hugsanlega tafið þessa þróun. Þetta vildi ég sagt hafa, að þróunin, tæknin nýtist fólki til að tala og hlusta eða heyra með tækni sem þýðir talmál yfir á letur og öfugt. Ég vil endilega að menn haldi því til haga að það megi ekki skemma þá þróun.