139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

almannatryggingar.

797. mál
[14:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók sérstaklega fram að ég mundi vilja flýta þessu máli þannig að það næðist í dag og hægt væri að greiða bæturnar út. Þetta snýst ekkert um að stoppa það. Málið snýst um að fjárlaganefnd eða þingmaður, ég get gert það sjálfur, leggi fram fjáraukalög svo fljótt sem auðið er og það verði afgreitt að bæturnar séu í fjáraukalögum.

Það má vel vera að það sé nýmæli, herra forseti, en ég held að ekki veiti af að skerpa dálítið á því hvað má greiða úr ríkissjóði og hvað ekki vegna þess að mjög mikil lausung virðist vera á ríkisábyrgðum, ríkisskuldbindingum og útgjöldum ríkissjóðs og allt þarf þetta að borga. Ég vil bara að skattgreiðendur nútímans og framtíðarinnar viti af þessu.