139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[14:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svör hans og hugleiðingar. Það er einmitt gott að ræða málin á þeim nótum sem við gerum hér. Mér finnst nefnilega aðalatriðið vera það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur bent á, að þegar hann fær á sig aukin verkefni og þarf að sinna þeim þá hagræðir hann, setur önnur til hliðar hugsanlega eða hagræðir annars staðar í rekstrinum. Það er gott og vel.

En ég var líka að benda á, og ég þykist vita að hæstv. utanríkisráðherra sé sammála mér í því, að það er líka mjög óþægilegt fyrir til að mynda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sem stendur vaktina, ef ég má orða það svo, og fylgist með umsóknarferlinu, enda hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagt í þessum stóli að hann sé sérstakur eftirlitsmaður með hæstv. utanríkisráðherra í þessu aðildarferli eða aðlögunarferli eins og hann kallar það. (Gripið fram í.) Já, já, reyndar, en hann hefur svo sem betri aðstöðu til þess að fylgjast með hæstv. utanríkisráðherra en ég og er sérstakur erindreki í því.

Þá velti ég því upp til að við séum ekki alltaf að ræða hluti eins og ég talaði um í ræðu minni: Hvað kostar umsóknin, kostar hún svona mikið? Og það er ekki verið að deila um neinar smátölur. Þá held ég að sé mjög mikilvægt fyrir hæstv. utanríkisráðherra og fyrir þingið allt að sjálfsögðu að hafa það uppi á borðum hvert verkefnið er í raun og veru í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu til þess einmitt að hagsmunaaðilarnir hverra hagsmuna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið á að gæta hafi ekki áhyggjur af því að það sé ekki verið að sinna neinu starfi. Það getur líka sent út (Gripið fram í.) þau skilaboð að það sé verið að gera.

Aðeins, af því að hæstv. ráðherra kallar fram í, langar mig að rifja upp og ég sagði það í ræðustóli einhvern tíma í vetur minnir mig að einmitt á málaskrá hæstv. ríkisstjórnar var mjög mikið af málum frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem átti að leggja fram á haustþingi en þau voru afskaplega fá sem rötuðu inn í þingið, ef nokkurt. Það var einmitt kallað eftir þeim hér af einum hv. þingmanni, Sigurgeiri Sindra Sigurgeirssyni, sem var hér sem varaþingmaður, hann kallaði einmitt eftir þeim frumvörpum sem beðið var eftir og sneru að landbúnaðarmálum. Þau komu því miður ekki fram. Kannski er komin skýringin á því, hæstv. utanríkisráðherra.