139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum.

[10:46]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum mánuðum kom ég í ræðustól og spurði hæstv. iðnaðarráðherra út í atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Þau svör bárust og Þingeyingum létti sem og öllum landsmönnum vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra sagði að Þingeyingar þyrftu að undirbúa sig fyrir stórfellda atvinnuuppbyggingu.

Nú get ég upplýst hæstv. ríkisstjórn um að Þingeyingar eru tilbúnir. Þeir eru undirbúnir fyrir stórfellda atvinnuuppbyggingu vegna þess að þar er allt til reiðu. Um 16 milljörðum hefur verið eytt í orkurannsóknir og orkuöflun. Umhverfismat og skipulagsferli er afstaðið. Heimamenn hafa unnið að málinu í sátt og samlyndi innbyrðis og tekið eitt skref í einu. En það bólar ekkert á þessari stórfelldu atvinnuuppbyggingu og að undanförnu hefur ekkert heyrst.

Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra: Hvað er að frétta af málinu? Geta Þingeyingar fengið skýr svör um það hvenær af þessari stórfelldu atvinnuuppbyggingu verður? Getur iðnaðarráðherra komið hér og upplýst þjóðina um að ráðist verði í atvinnuuppbyggingu sem muni auka hagvöxt og minnka atvinnuleysi?