139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér væri engum þingmanni neitt að vanbúnaði að taka þátt í því að ræða þessi mál eða einhver önnur ef knýjandi væru fram á kvöld, en það er í raun ekkert sem knýr á í þessu sambandi. Við erum að undirbúa okkur til þess að fara að ræða mál sem eru algjörlega undirbúningslaus, sem standast ekki mál, sem ekki er búið að ræða í hörgul í undirbúningnum og þess vegna er ekki tilefni til að vera með umræðu hér fram á kvöldið.

Að minnsta kosti eitt þeirra frumvarpa sem um er að ræða á að hafa gildistöku á síðari hluta næsta árs og það er auðvitað ekki neitt tilefni til að efna sérstaklega til kvöldfundar til að greiða fyrir því að það mál nái fram að ganga. Hitt stjórnarmálið er eins og allir vita svo illa undirbúið að það er tæplega þingtækt og þess vegna er engin ástæða til að lengja þennan fund fram á kvöld.