139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:25]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel eðlilegt að þingið verði við beiðni hæstv. forseta um að halda hér þingfund fram á kvöld. Ég tel að við þingmenn eigum að búa okkur undir kvöldfundi að mestu leyti þar til þessu þingi lýkur núna (Gripið fram í.) með þingfrestun. Mjög mörg mál voru afgreidd í góðu samkomulagi út úr þingnefndunum á nefndadögunum í síðustu viku. Hér eru stór mál til afgreiðslu til 1. umr. eins og á dagskránni í dag (Gripið fram í: Of seint fram komin.) og það er mikilvægt að mæla fyrir þeim og koma þeim til nefndar og vinnslu. Okkur veitir ekkert af tímanum og við þurfum að nota allan þann tíma sem við mögulega getum til að vinna okkur fram úr þeim málum sem liggja fyrir.

Þingfrestun er áætluð 9. júní. Það er fyrirætlun stjórnarflokkanna að vinna með þau mál sem hér hafa verið lögð fram á réttum tíma og þau mál sem tengjast kjarasamningum, m.a. þessi stóru mál sem núna eru á dagskrá. Okkur veitir ekki af tímanum og að við undirbúum okkur undir það að hafa (Forseti hringir.) kvöldfundi flest kvöld.