139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil árétta það sem fram hefur komið, ástæða þess að þetta mál kemur svo seint fram á dagskrá þingsins á þessu vori er alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem tók til við það verkefni, eftir að sáttanefnd hafði skilað niðurstöðu í septemberbyrjun á síðasta ári, að senda frá sér frumvörp. Næstum því níu mánuðum seinna koma þessi frumvörp til þingsins og um þau er slíkur ágreiningur að ekki einu sinni er óskiptur stuðningur við þau innan ríkisstjórnarflokkanna sjálfra sem þó eru búnir að hafa allan veturinn til að reyna að koma sér saman um einhverja niðurstöðu. Þegar af þessari ástæðu væri eðlilegast að ríkisstjórnin tæki þessi frumvörp aftur til sín og reyndi hugsanlega að koma sér aðeins saman um einhverja stefnu í þessum málum áður en hún leggur þau fram á þingi.

Það væri líka ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstjórn að skoða stjórnarskrárþátt málsins (Forseti hringir.) sem fjármálaráðuneytið vekur athygli á í umsögnum sínum og hefur greinilega ekki verið skoðaður nægilega vel áður en frumvarpið var lagt fram.