139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg sannarlega frumvarp hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar. Það undirstrikar hæstv. ráðherra með því að skrifa inn í frumvarpstextann í þessu litla frumvarpi 32 sinnum að hann hafi heimildir til að gera eitt og annað. Þetta eru sjö efnisgreinar þannig að nafn hæstv. ráðherra kemur þar við sögu að jafnaði tæplega fimm sinnum í hverri einustu efnisgrein þessa frumvarps. Hér með held ég að hæstv. ráðherra hafi slegið Íslandsmet, ef ekki heimsmet. Hæstv. ráðherra gumar sig af því að hér sé brotið í blað varðandi ráðstöfun veiðigjaldsins. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á því að það er verið að hækka veiðigjaldið um 2 milljarða kr., en ekki nema helmingur þess eða tæplega það á síðan að fara til byggðanna sérstaklega.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Ef það var meiningin að láta meiri hluta af þessu gjaldi renna beint til byggðanna, hvers vegna tók (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra ekki skrefið til fulls og tryggði að minnsta kosti að öll aukningin upp á 2 milljarða kr. rynni þá til byggðanna?