139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil svar hæstv. ráðherra þannig að það sé eðlilegt að færa frá einum almenningi til annars. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra annarrar spurningar sem ég held að sé býsna mikilvæg. Þetta er eingöngu fyrra málið sem hæstv. ráðherra ætlar sér að mæla fyrir í þinginu ef ég skil rétt hvernig ríkisstjórnin ætlar að halda hér á málum. Að vísu er hér mál frá Hreyfingunni sem sett er á dagskrá líka. Nú er búið að gagnrýna þessi frumvörp um sjávarútvegsmál mjög mikið, sér í lagi hið svokallaða stærra mál, nr. 827. Það er stutt eftir af þinginu og enn hefur ekki verið haft neitt samráð eða samstarf um gerð þessara frumvarpa við stjórnarandstöðu eða hagsmunaaðila. Það er ljóst að það finnst varla maður fyrir utan þessa sali sem mælir með þessu frumvarpi. Getur ráðherra hugsað sér að stóra málið verði sett í þann farveg í sumar að fyrir því verði ekki mælt hér á þinginu, að í það minnsta verði ekki kláruð nein umræða um það, og málið sett í samráðsferli í sumar? (Forseti hringir.)