139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmann til að lesa aftur samþykktir flokksþings framsóknarmanna. Ég get líka farið yfir þær. Ég spurði hver væri hvatinn vegna þess að mér fannst vanta bæði í þetta frumvarp og eins hið svokallaða stóra frumvarp að markmiðið væri að tryggja rekstrargrundvöllinn í greininni eins og kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það fannst mér skorta.

Að við framsóknarmenn göngum lengra er alveg rétt. Við tilgreinum fjóra potta þar sem við leggjum mikið upp úr því að í einum pottinum sé lögð mikil áhersla á nýsköpun í greininni, að bæta við og stækka kökuna, fara nýjar leiðir. Í öðrum potti leggjum við til í tengslum við strandveiðar að þær verði raunverulega nýliðunarveiðar og útfærum tillögurnar með ákveðnum hætti, förum út úr sóknardagakerfinu og svolítið aðrar leiðir. Það er nokkuð sem við getum skoðað en er allt annars eðlis en það sem hér er boðið upp á.