139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil minna þingheim á að fjöldi sjómanna á Íslandsmiðum hefur misst atvinnu vegna hagræðingar og samþjöppunar í því kvótakerfi sem verið hefur við lýði. Við erum að reyna að mæta þeim vanda sem víða er og byrja smátt með strandveiðum, en síðan eru grundvallarbreytingar í stóra kerfinu. Ekki er verið að stuðla að því að atvinnusjómenn í dag missi vinnu sína, heldur er verið að styrkja grundvöllinn með því að gera nýtingarsamninga til langs tíma og þar á meðal að styrkja grundvöllinn hjá þeim sem eru við sjómennsku í dag. En það er líka verið að gefa öðrum möguleika á að komast inn í greinina sem ekki er hægt í dag og við verðum sem þjóð að gefa íslenskum sjómönnum kost á að hefja útgerð.