139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og menn rekur minni til gekk á ýmsu í þessari endurskoðunarnefnd. Sumir sögðu sig úr henni á tímabili vegna þess að þeir voru ekki sáttir við ýmislegt og töldu að þeir gætu haldið uppi fornu háttalagi þannig að ef þeir færu frá borði yrði allt stopp. Ég þakka hv. nefndarmönnum öðrum sem héldu þetta út og til enda. Að sjálfsögðu er að hluta byggt á þessu nefndarstarfi.

Ég vil aðeins víkja að því frumvarpi sem við erum með til meðferðar, breytingum á núgildandi lögum. Annars vegar þyrfti að auka strandveiðarnar og hins vegar byggðaaðgerðirnar sem ég teldi mjög brýnt að enn frekari heimildir yrðu opnaðar fyrir. Við erum að vonast til að hægt verði að auka talsvert þorskveiðiheimildir á næsta fiskveiðiári. Þá er líka einboðið, finnst mér, að þeim verði að hluta skipt á milli þeirra þátta sem ég nefndi, annars vegar núverandi aflamarkshafa og hins vegar þeirra (Forseti hringir.) aðila sem ég nefndi. En að óbreyttum lögum fer allt á einn veg. Þess vegna er mjög brýnt að breyta lögunum. (Forseti hringir.)