139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég skil það þannig að hv. þingmaður sé sammála þeirri hugmyndafræði sem kemur fram í þessu frumvarpi. Ég gat ekki annað skilið á ræðu hans áðan. Mér fannst svar hans við andsvari mínu benda til hins sama, þ.e. að hann væri sáttur við hugmyndafræðina á bak við hverja grein eins og hann fór yfir þær. Hann gerði það mjög skilmerkilega og á skipulegan hátt. Ég hlýddi af mikilli athygli á alla ræðuna hans og fannst hv. þingmaður ítreka að hann væri sammála þeim prinsippum og þeim hugmyndum sem koma fram í frumvarpinu. Það þarf fyrst og fremst að ræða útfærsluatriði varðandi einstakar greinar.

Það er fyrst og fremst þetta sem ég er að kalla eftir í þessari umræðu og spyr hvern þingmann eftir ræður þeirra hvort það sé ekki tilfellið, að þarna sé þá kominn umræðugrundvöllur. Rétt eins og hv. þingmaður benti á áðan er þetta afrakstur mikillar vinnu sem við tveir áttum þátt í ásamt mörgum fleirum. Er hér þá ekki kominn þessi umræðugrundvöllur sem við höfum getað fetað okkur áfram og eigum við þá ekki að koma þessu máli sem fyrst inn í nefnd (Forseti hringir.) þannig að við getum klárað það á þinginu í vor?