139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:25]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir hans óvenjulegu og skemmtilegu inntökubeiðni í Framsóknarflokkinn. (BJJ: Veri hann velkominn.) Ég vænti þess að varaformaður þess flokks bjóði hann velkominn síðar í kvöld.

Mig langar að heyra örlítið nánar af þeim fyrirvörum sem hv. þingmaður er með við það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það kom ágætlega fram í ræðu hv. þingmanns að hann er ötull og mikill talsmaður þeirrar svokölluðu sáttaleiðar sem menn náðu þokkalega breiðri samstöðu um. Hvað er það í þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir sem gengur gegn þeirri sáttaleið og hvaða leiðir sér hv. þingmaður til þess að sníða agnúana af frumvarpinu svo það falli að þeirri niðurstöðu sem aðilar máls komu sér saman um í september fyrir hálfu ári síðan?