139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[12:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hæstv. utanríkisráðherra taki málefni íslenska heildsalans til umfjöllunar. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er að sínu leyti ákveðinn frumkvöðull og sá stjórnmálamaður sem kannski steig stærstu skrefin í því að varða þá leið sem fram kemur í frumvarpinu. Hann á auðvitað hrós skilið fyrir það vegna þess að markmiðið hefur alltaf verið það sama, að reyna að draga úr rekstrarkostnaði hins opinbera og spara í ríkisrekstri og við getum verið sammála um að slíkt sé mikilvægt. Ég held að ég og hæstv. utanríkisráðherra ættum að geta sammælst um það.

Athugasemdir mínar við frumvarpið komu fram í ræðu minni. Ég benti á að ég hefði efasemdir um að eðlilegt sé að gera breytingar á almennum lögum um opinber innkaup sem varða innkaup á allri vöru og þjónustu til að ná fram einhverjum sértækum aðgerðum eða ná einhverjum sérstökum árangri. Ég hefði frekar viljað sjá aðra útfærslu á því. En auðvitað er eðlilegt með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram hafa komið við vinnslu málsins í nefndinni, að ef rangt er með farið kann það að koma mjög illa við einstakar atvinnugreinar í landinu. Ég er alveg sammála því að menn verði að spjara sig í samkeppninni og reyna að vera samkeppnishæfir gagnvart samkeppnisaðilum sínum á erlendri grundu. En það breytir ekki því að við verðum að hafa leikreglurnar skýrar. Hér er mælt fyrir um að eftirlitið með þessari heimild sé mikið og með því er verið að reyna að gera allt ferlið faglegra. Ég geri ráð fyrir að hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) sé mér sammála um að það sé hin rétta leikregla.