139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að þingmenn Framsóknarflokksins hafi allir sem einn kynnt sér ágætlega stefnu Framsóknarflokksins sem var samþykkt á síðasta flokksþingi. Ég hef setið hér og hlustað á umræðuna og ég veit ekki betur en að við höfum öll imprað á atriðum sem koma fram í þeirri stefnu.

Hins vegar ætla ég að fá að taka það fram sem varðar það hvort hægt væri að ná einhverri allsherjarsátt. Ég hef haft miklar efasemdir um að í raun og veru sé hægt að ná fullkominni sátt um stjórn fiskveiða. Við erum að fást við alveg gífurlega hagsmuni, verðmætustu atvinnugrein landsins. Þegar við erum að fást við svona mikla hagsmuni munu menn takast á. Það verður gert innan þings og það verður gert hérna fyrir utan. Við verðum að reyna að finna bestu miðjuleiðina. Það tel ég að við höfum reynt að gera með stefnumörkun okkar á síðasta flokksþingi. Ég vona svo sannarlega að aðrir þingmenn verði tilbúnir að taka undir þær áherslur sem koma þar fram.