139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[14:33]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar frumvarpið kom fram og ég hafði kynnt mér það gat ég einmitt sagt að ég teldi að í grundvallaratriðum væri mjög margt sameiginlegt með þessu frumvarpi og stefnu Framsóknarflokksins, við byggðum náttúrlega á þessari samningaleið. Við byggjum á hugmyndum um potta, pott 1 og pott 2. Það sem mér finnst skipta sérstaklega miklu máli, ég held að vísu að allir stjórnmálaflokkar hér séu sammála um það, er mikilvægi þess að sameign þjóðarinnar verði tryggð með ákvæði í stjórnarskrá. Ég á eftir að sjá þá tillögu koma inn í þing og að hún verði samþykkt samhliða því að við afgreiðum þessar breytingar á stjórn fiskveiða þannig að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign, þjóðareign. Það þarf að vera algjörlega skýrt. Við höfum þegar lagt fram frumvörp tvisvar sinnum um hvernig mætti orða það.

Ég tek hins vegar undir það sem hæstv. ráðherra segir hér, ef það er vilji til þess að ná samkomulagi og það er í samræmi við þá hugmyndafræði og þá stefnu (Forseti hringir.) sem við stöndum fyrir er möguleiki á samningum en það verður að byggjast á þeirri stefnu og þeirri hugmyndafræði sem við höfum (Forseti hringir.) og ég treysti fulltrúa okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að framfylgja því.