139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:41]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja ræðu mína á orðum úr grein eftir sjálfa mig sem birtist í Morgunblaðinu 1. mars 2009:

„En þá þarf líka viðmót stjórnvalda gagnvart þessari atvinnugrein að vera í einhverju samræmi við mikilvægi hennar. Það gengur ekki að þeir sem stunda þennan atvinnurekstur búi í stöðugri óvissu um þær lagalegu forsendur sem hann hvílir á. Það dregur úr áhuga manna á að fjárfesta í sjávarútvegi og fjármagnið leitar þá einfaldlega í aðrar atvinnugreinar, sem búa við „öruggari“ aðstæður.“

Þetta var í mars 2009. Svo er kosið og við tekur hin hreina vinstri stjórn, og viti menn, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar sáttanefnd í júlí 2009. Ég hugsaði, jæja, af því að ég er mjög jákvæð og glaðbeitt manneskja að upplagi, að það væri von um að raunverulegur vilji væri til að ná sátt í sjávarútvegi.

Nú eru liðnir átta mánuðir frá því að sáttaleiðin svokallaða í sjávarútvegi var lögð fram. Þá komu fram tillögur 18 manna starfshóps undir forustu þess af ráðherrum Samfylkingarinnar sem stundum er talinn líklegastur til að verða næsti formaður hennar. Hæstv. núverandi velferðarráðherra tókst að ná næstum fullkominni samstöðu um þær tillögur, 16 af 18 nefndarmönnum studdu þær. Þar var lagður grunnur að sögulegri sátt um sjávarútvegsmál á Íslandi undir forustu eins af leiðtogum Samfylkingarinnar. Þessi ríkisstjórn hafði sem sagt einstakt tækifæri til að skrifa um sjálfa sig þau merku eftirmæli að hafa komið á friði í sjávarútvegi á Íslandi. En ríkisstjórnin hafnaði þessu tækifæri og kaus ófrið, ekki bara við stjórnarandstöðuna heldur líka innan eigin raða eins og fram hefur komið í ræðum í gær og í dag. Þar ríkir ekki sátt og ekki heldur við svo gott sem alla hagsmunaaðila í greininni.

Nú erum við hér í dag að kljást við annan af tveimur, fyrirgefðu, virðulegi forseti, bastörðum stjórnarflokkanna um þetta mál. Þeir komu sér ekki einu sinni saman um eitt frumvarp, þau urðu að vera tvö, VG-frumvarpið og samfylkingarfrumvarpið. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í gær að við ættum að drífa þetta litla frumvarp af vegna þess að hann vildi ræða stóru Jónsbók sem er samfylkingarfrumvarpið.

Það er kannski við hæfi að ein grein þessa frumvarps sem við ræðum hér í dag, eina greinin sem á að koma til framkvæmda strax, fjallar um stóraukið vald ráðherra til úthlutunar á kvóta. Þetta eru göfugar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eða hitt þó heldur. 1.–6. gr. eiga ekki að taka gildi fyrr en á næsta fiskveiðiári en 7. gr. skal taka gildi um leið og þessi lög verða samþykkt. Í henni eru bráðabirgðaákvæði. Ein setningin er svona, með leyfi forseta:

„Á fiskveiðiárunum 2010/2011 og 2011/2012 hefur ráðherra til ráðstöfunar, til sérstakrar úthlutunar, 2.000 lestir af síld …“

Við erum að tala um sumargotssíld. Á sömu fiskveiðiárum hefur ráðherra líka til úthlutunar, reyndar á næsta fiskveiðiári, 1.200 lestir af skötusel. Þarna er hann að festa í sessi ansi umdeilda lagabreytingu sem hefur verið rædd hér fram og aftur. Svo er annað ákvæði, með leyfi forseta:

„Á fiskveiðiárunum 2010/2011 og 2011/2012 er skipstjóra skips heimilt að ákveða að ákveðinn hluti keilu- og lönguafla skips reiknist ekki til aflamarks þess.“

Ég fer aðeins neðar:

„Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.“

3. liðurinn í þessu bráðabirgðaákvæði hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á fiskveiðiárunum 2010/2011 og 2011/2012 hefur ráðherra til ráðstöfunar allt að 2.400 lestum af þorski og 600 lestum af ufsa til strandveiða hvort fiskveiðiár, til viðbótar við það aflamagn sem tiltekið er í 6. gr. a.“

Ráðherra hefur til ráðstöfunar, hann hefur leyfi til að úthluta þessu og mun að sjálfsögðu gera það, hann gengur hart eftir því að þetta frumvarp fari hér í gegn til þess að hann geti sett eftir geðþóttaákvörðunum sínum inn í þá þrjá hluti sem hér voru taldir upp.

Hinar greinarnar eiga að taka gildi á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september. Mig langar aðeins að koma inn á 3. gr. í framhaldi af því að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur komið mjög mikið inn á atvinnusköpun strandveiða. Strandveiðar eiga að sjálfsögðu rétt á sér, en mér finnst strandveiðar ekki eiga rétt á sér með þeim hætti að veiðirétturinn sé tekinn af öðrum. Ég skil ekki hvernig það skapar nýja atvinnu að færa til tonn sem einhver annar veiddi.

Mig langar að beina spurningu til hv. formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur: Eru einhvers staðar til einhverjar tölur um alla þessa nýliðun vegna strandveiðanna? Er þetta ekki að hluta til eins og um er talað, en ég ætla ekki að fullyrða, að þetta sé aukavinna eða hobbímennska? Það sem er tekið af einum til annars getur aldrei verið atvinnusköpun. Það er tilfærsla á atvinnu. Þó að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra haldi því fram að þetta frumvarp muni skapa svigrúm til að auka þorskkvóta er það einfaldlega ekki rétt.

Frumvörp á Alþingi sem snúa að til dæmis auknu aflamarki til strandveiða geta ekki fjölgað fiskunum í sjónum. Ég skil bara ekki þá hugsun hvernig það getur fjölgað fiskunum í sjónum að samþykkja þetta litla frumvarp eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagði í útvarpsfréttum ekki alls fyrir löngu.

Svo er annað sem mig langar til að koma inn á, hæstv. ráðherra og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir tala alltaf um mikilvægi þess að verja sjávarbyggðirnar. Þar er ég sammála en mig langar að spyrja hana um hvaða sjávarbyggðir hún sé að tala. Hvaða byggðir er verið að tala um? Er verið að tala um allar byggðir þar sem stundaðar eru veiðar? Eða er verið að tala um það sem vísað er til gagnvart byggðakvóta, minni sveitarfélög, minni byggðir? Erum við að tala um byggðir þar sem eru 1.500 manns eða færri? Það eru líka til sjávarbyggðir með fleirum og það eru líka til sjávarbyggðir sem fara illa út úr þessu þegar alltaf er verið að taka úr þessum sameiginlega sjóði.

Mig langar aðeins að grípa niður í athugasemdir við 3. gr. laganna í frumvarpinu þar sem verið er að auka þetta svokallaða ráðherraræði og pólitískvæða þessa stjórn, með leyfi forseta:

„Í þessari grein er sveitarstjórnum gefinn sá kostur að velja á milli úthlutunarreglna ráðuneytisins eins og þær birtast í reglugerð hverju sinni eða nýs fyrirkomulags.“

Af hverju erum við að fara inn á það að ekki bara ráðherrann er kominn með nánast reglugerðarheimild við hverja einustu grein laganna, heldur að ef ráðherrann nýtir hana ekki og nýtir ekki það sem hann getur til þess að breyta geta sveitarstjórnirnar gripið inn í hvernig á að úthluta byggðakvótanum? Hefði ekki verið nær að hafa þetta bara fast í hendi fyrst þetta á að vera þarna inni? Eiga misvitrir pólitíkusar, með fullri virðingu fyrir fólki í pólitík, að véla um þetta? Er þetta framfaraskref? Er þetta til að auka gegnsæi? Er þetta til að auka skilvirkni og gera þetta allt laust við spillingu?

Þung orð hafa fallið í þessum ræðustól er varða pólitíkina og ríkjandi hugsun. Eða er það hugsunin í þessu frumvarpi að meðan hin mikla vinstri stjórn er hér við völd muni aldrei nein spilling líðast, að þá muni allt vera gott og blessað og allt fallegt?

Það er annað sem mig langar að koma inn á sem fer virkilega í taugarnar á mér, og hefur gert lengi, og kemur fram í umræðu um sjávarútvegsmál. Það er gjörsamlega óþolandi að í þennan ræðustól komi fólk, hv. alþingismenn, trekk í trekk og tali niður ákveðna atvinnugrein, tali niður útgerðarmenn, kalli þá illum nöfnum. Sjávarútvegurinn er atvinnugrein. Hann byggist ekki upp á einhverjum einum hlut. Hann byggist upp á mörgu eins og kom fram í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Hann byggist upp á þeim aðilum sem starfa beint við greinina, óbeint líka á þeim fyrirtækjum sem eru til hliðar við greinina og byggja afkomu sína á henni. Það er gjörsamlega óþolandi hvernig talað er um þennan undirstöðuatvinnuveg. Ég held að það væri þinginu til mikils sóma ef allir þingmenn tækju sig á og hættu að tala, eins og þeir gera, niður til útgerðarmanna vegna þess að þeir eru ekki bara innan vébanda LÍÚ og þeir eru ekki vondir; þeir eru góðir og þetta er venjulegt fólk. Þetta er óþolandi. Þetta er fólk sem er að skapa sér atvinnu eins og hér hefur verið bent á. Einyrkinn er líka útgerðarmaður. Hættum að tala svona. Tölum efnislega um málið. Tölum af ábyrgð og tölum þannig að við treystum okkur til að standa frammi fyrir fólki og verja það sem við erum að segja.

Hæstv. forsætisráðherra ætti að hlusta á það sem ég er að segja vegna þess að hún þorir aldrei í þessa umræðu nema í gjörsamlega vernduðu umhverfi sem hún reyndar treystir sér ekki í lengur vegna þess að hún vill stofna nýjan flokk. Ég veit að hér inni, ég vil trúa því, er gott fólk sem vill landi og þjóð vel, allt fyrir betra Ísland. Ég er ein af þeim. Við gerum það ekki með því að tala niður sjávarútveginn. Þetta er atvinnugrein. Vöndum okkur.

Mig langar að nota síðustu mínúturnar hérna til að ræða það aðeins að breytingar í sjávarútvegi og breytingar á lögum um fiskveiðar eru nauðsynlegar. Það er sátt um það, það er ekki ósátt á þingi um að það þurfi breytingar. Ósáttin snýst um að það er farið af stað með vanbúin mál, gjörsamlega vanbúin. Tækifæri til að ná hinni miklu sátt er bara hent út um gluggann. Því miður. Stjórnarliðar stóðu að þessari sátt. Hvað gerðist? Af hverju völdu menn að taka þetta mál í ágreining? Þetta er okkur svo mikilvægt.

Ég kem frá Vestmannaeyjum, því plássi sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom inn á. Hvað mundum við gera ef allir útgerðarmenn mundu ákveða í kvöld að fara frá Vestmannaeyjum og flytja til Akureyrar? Það er ekki mjög málefnalegt að segja svona. Það tekur enginn upp tvö risastór fyrirtæki í Vestmannaeyjum, Vinnslustöðina og Ísfélagið, og ákveður að flytja það til Akureyrar yfir nótt, fiskveiðiheimildina. (LRM: Annað eins hefur gerst.) Annað eins hefur gerst, það getur vel verið, en ef einhver einn er óþekkur, hegðar sér illa, á þá að refsa öllum sem standa eftir? Er það lausnin? Er lausnin ekki að ná sátt? Er það ekki það sem menn vilja? Viljum við ekki að allir í þessu landi séu stoltir og ánægðir með sjávarútveginn, hvernig hann er rekinn, ánægðir með hann og geti haft atvinnu af honum?

Ég er sjómannskona. Mér finnst ekki talað vel um sjávarútveginn á Íslandi og þá sem standa í honum. Það er okkur ekki til sóma. Við eigum að taka okkur tak.