139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:58]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið eða innlegg hans í umræðuna, ætti ég frekar að segja. Ég minnist þess ekki að hafa rætt stóra frumvarpið, samfylkingarfrumvarpið eins og við skulum kalla það hér. Ég minntist ekki einu orði á nýtingarsamningana, ekki einu orði, af því að ég ætla mér að geyma það þangað til umræðan um stóra frumvarpið fer fram.

Mig langar að benda hv. þingmanni á að ég mundi gjarnan vilja eiga orðastað við hann um það hvað honum finnst um nýtingarsamningana. Ég bendi honum á að setja sig á mælendaskrá þannig að við getum átt hér orðastað við hann. Ég ræddi við hv. þingflokksformann okkar, hún er tilbúin að hleypa þér inn í sinn stað í röðinni ef þú ert tímabundinn.

Svo er annað, ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það eins og allir, ég held að enginn ágreiningur sé um það, að það þurfi að gera nýtingarsamninga. Það er enginn ágreiningur um það en tímalengdin og útfærslan í frumvarpinu sem er hér ekki til umræðu, en hv. þingmaður vill greinilega ræða, er bara ekki í lagi. Þar erum við sammála. Ég mundi gjarnan vilja að þú færir yfir þessi mál, ég bíð bara spennt eftir að heyra ræðu þína í þessari umræðu um VG-frumvarpið af því að ég veit að þú munt tala um samfylkingarfrumvarpið, hv. þingmaður.

Í sambandi við veiðigjaldið, að sjálfsögðu á að vera gjald fyrir nýtingu á öllum auðlindum. Það á ekki sérstaklega að taka sjávarútveginn út. Með því er ég ekki að segja að ég sé á móti auðlindagjaldi á sjávarútveg, heldur á sjávarútvegurinn að sitja við sama borð og aðrar greinar og aðrar auðlindir. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé sammála mér í því að við hljótum að ætla að taka þetta heildstætt. Ég mæli eindregið með því að þú setjir þig á mælendaskrá, hv. þingmaður, af því (Forseti hringir.) að við viljum heyra hvað þú hefur að segja, þ.e. hvað hv. þingmaður hefur að segja.