139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða sem hefur staðið frá því í gær um frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur á margan hátt verið upplýsandi, ekki upplýsandi í þeim skilningi að við höfum fengið mörg svör við því sem við höfum spurt eftir í umræðunum, öðru nær, svörin hafa mjög verið af skornum skammti. Við höfum kallað eftir svörum við ýmsu af því sem við höfum velt hér upp með eðlilegum hætti í mestanpart málefnalegri umræðu. Umræðan hefur verið upplýsandi fyrir þeirra hluta sakir að hún hefur vakið athygli á því hversu ófullbúið þetta frumvarp er.

Það er alveg ljóst að þetta er afrakstur af nokkru togi sem hefur átt sér staðan innan og milli stjórnarflokkanna og það blasir síðan við að mjög mörgum spurningum sem eðlilega væri svarað í frumvarpinu sjálfu er látið ósvarað. Þessum spurningum er síðan velt í fangið á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fær 30 og eitthvað heimildir í þessu frumvarpi til að útfæra málin að mestu leyti eftir sínu höfði. Það er ótrúlega lítil leiðsögn til hæstv. ráðherra í þessum efnum. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari við mig að þetta væri vegna þess að hæstv. ráðherra væri einfaldlega að afla sér eðlilegra reglugerðarheimilda en svo er ekki. (Gripið fram í: … góður ráðherra.) Það er eingöngu þannig að hæstv. ráðherra fær hér opnar heimildir. Frumvarpið opnar honum mjög miklar leiðir til að stýra þessu máli eftir sínu höfði. Þetta er auðvitað áhugavert og athyglisvert.

Í öðru lagi er hitt að fram hefur komið í ræðum stjórnarliða mjög veigamikil gagnrýni á þýðingarmikil atriði í þessu frumvarpi sem er líka áhugavert að velta upp. Allt þetta leiðir til þess að það er augljóst mál að okkar sem sitjum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd bíður mikil vinna við að útfæra þetta frumvarp og reyna að fá einhvern botn í það sem þar er um að ræða.

Einn af þeim þáttum sem þetta frumvarp gengur út á er hækkun á veiðigjaldinu um 70% og boðað er í næsta frumvarpi að það verði síðan hækkað um 90% frá því sem nú er. Menn hafa spurt: Getur ekki sjávarútvegurinn ráðið við þetta? Svarið er: Það er mjög mismunandi. Það fer til dæmis eftir útgerðum, það getur farið eftir útgerðarflokkum, það getur farið eftir aðstæðum. Það er alveg augljóst að forsendan fyrir þessum útreikningi sem byggt er á í sambandi við veiðigjaldið að þessu sinni er sú framlegð sem hefur komið fram í ársreikningum fyrirtækjanna fyrir árið 2009. Þar kemur fram að framlegðin af útgerðinni var um 30 milljarðar kr. og ætlunin er að taka um 20% af þessari framlegð og setja inn í veiðigjaldið.

Framlegðin á að standa undir fjármagnskostnaði fyrirtækja og það er augljóst að þetta mun hafa áhrif á greiðslugetu þeirra fyrirtækja sem eru skuldsettust, oft og tíðum minnstu fyrirtækin og þau nýju. Svarið við þessu er ekki einfaldlega já eða nei. Þetta verður mjög mismunandi og þetta mun augljóslega hafa í för með sér að útgerðum mun fækka. Til þess er auðvitað leikurinn gerður. Hugmyndafræðin á bak við sjálft veiðigjaldið er einmitt að setja auðlindaskatt af þessum toga, það sögðu menn sem töluðu fyrir þessu máli á sínum tíma, til að tryggja að þeir sem stunda sjávarútveginn séu þá þeir sem „menn hafa talið færasta til þess“.

Síðan er mjög sérkennilegt atriði í þessu frumvarpi, opnuð er heimild fyrir hæstv. ráðherra til að hafa veiðigjaldið mismunandi eftir því sem kallað er útgerðarflokkar. Nú spyr ég hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hér er: Hvernig hyggst hann útfæra þetta? Hvernig lítur hann á hugtakið útgerðarflokkur? Manni dettur strax í hug rækjuveiðar. Eru rækjuveiðar útgerðarflokkur? Er það útgerðarflokkur þegar við erum að tala um útgerð skipa sem veiða tiltekna fisktegund? Rækjuveiðarnar hafa gengið illa. Þar er framlegðin lítil. Hæstv. ráðherra er væntanlega að hugsa um að hafa þetta þá þannig að hann geti hliðrað til gagnvart þessum útgerðarflokkum sem þýðir náttúrlega að nettóinnheimtan af gjaldinu verður sem því nemur minni. Er þá ekki miklu eðlilegra, hæstv. ráðherra, að hafa þetta þannig að í frumvarpinu standi nákvæmlega hvað átt er við með útgerðarflokkum og gera þá grein fyrir því með nánari hætti í frumvarpinu í stað þess að hafa þetta eins opið og hér er um að ræða? Það eru þessar opnu heimildir hæstv. ráðherra sem er tvímælalaus ástæða til að gagnrýna. Ástæðurnar eru auðvitað þær sem við vitum, það er verið að afgreiða þetta mál ófullbúið frá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum og síðan er ætlunin að hæstv. ráðherra fái alræðisvald.

Annað dæmi um þetta er strandveiðarnar. Þar hef ég gagnrýnt mjög mikið misskiptingu milli veiðisvæða. Hér er verið að opna á enn eina heimildina fyrir hæstv. ráðherra, hann getur ráðið hvernig hann skiptir veiðisvæðunum en hér fær hann nýja heimild til viðbótar sem er sú að hann getur líka ráðið því nákvæmlega hvernig tímabilaskiptingin er. Hann er ekki lengur bundinn af því að binda þetta niður í mánuði, hann getur þess vegna haft eitt tímabil, hann getur haft tíu tímabil, hann getur nánast ráðið því eftir vild sinni.