139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:30]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst athyglisvert hjá hv. þingmanni að nefna hér nýliðun og nýsköpun í sjávarútvegi. Ætli það sé ekki svona 400–500 fyrirtæki sem stunda útgerð hér á landi, a.m.k. var það þannig fyrir einhverjum árum síðan að hluthafar í sjávarútvegsfyrirtækjum skiptu tugum þúsunda. Það kann að hafa breyst eftir að félögin voru tekin af markaði en nú liggja fyrir þessi frumvörp sjávarútvegsráðherra sem banna veðsetningar, beinar og óbeinar, í sjávarútvegi. Þar er gengið býsna langt.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvaða áhrif hann telur að það bann hafi á nýliðun í greininni. Vegna þess að það er nú einu sinni þannig að þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnurekstri, hvort sem það er í verslun, þjónustu eða sjávarútvegi, þurfa að hafa heimildir til þess að veðsetja rekstrartækin til að geta hafið atvinnurekstur. Þegar veðsetningin er bönnuð, hvaða áhrif mun það hafa á nýliðun?