139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski einmitt það sérkennilegasta við þessi frumvörp að það virðist sem þeir einir geti fjárfest í þessari atvinnugrein, og eigi síðan að fá úthlutað gefins kvóta og sitthvað fleira, sem hugsanlega hafa selt sig út úr greininni og hugsanlega eru með hendur fullar fjár. Og þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson nefnir venjulegt fólk er það auðvitað óhjákvæmilegt að rifja upp orð hæstv. fjármálaráðherra á flokksráðsfundi Vinstri grænna að ekki hafi farið illa fyrir venjulegu fólki, en það er þá margt óvenjulegt fólk á Íslandi sem ekki mun geta fjárfest í sjávarútvegi, einfaldlega vegna þess að það er ekki með fullar hendur fjár eftir hrunið. Ég held að það sé augljóst og kannski einn aðalgallinn við frumvörpin eins og þau eru fram komin núna að á þeim hefur ekki verið gerð nein hagfræðileg athugun.