139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona reyndar að atvinnugreinin verði sem lengst í nýsköpun og sem flestir í henni. Hugmyndafræðin þarna var kannski hugtakablöndun með nýliðun og nýsköpun, að það þurfi ekkert endilega að vera nýliði sem fer í nýsköpun, það gæti alveg verið viðurkennt fyrirtæki. Hugmyndafræðin með að hafa þarna ákveðinn pott er sú að þá sé búið að afmarka ákveðna fjármuni og heimildir til þess og síðan yrði sótt um. Hvort það yrði til eins árs eða tveggja færi sjálfsagt eftir því hversu erfitt væri að skapa þessi verðmæti, hversu flókið það væri og hve langan tíma það tæki. En ég held að þetta væri áhugaverð leið til að stækka kökuna, til að fjölga tækifærunum. Og í stað þess, eins og við höfum kannski verið að horfa á núna með þessa takmörkuðu auðlind, t.d. ef við tökum strandveiðarnar sem dæmi, að ætla að fara í það sem aðrir hafa verið að gera væru kannski einhverjir tilbúnir til að gera eitthvað nýtt sem enginn hefur gert.