139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:59]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þetta er hið svokallaða minna frumvarp sem ég hef kosið að kalla VG-frumvarpið til aðgreiningar frá því stærra sem ég kalla samfylkingarfrumvarpið.

Það sem ég ætla mér að gera hér í kvöld er að fara örlítið yfir árangurinn af kvótakerfinu, aflamarkskerfinu, og í framhaldi af því mun ég bera það saman við það sem er boðað í VG-frumvarpinu og spá í afleiðingarnar af því.

Það er ljóst að við lestur beggja frumvarpanna, bæði VG-frumvarpsins og samfylkingarfrumvarpsins, að þar hefur verið kastað til höndunum. Það kemur svo sem ekki mikið á óvart vegna þess að saga breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu undanfarin missiri hefur verið þyrnum stráð. Þá er skemmst að minnast reglugerðarbreytingar hæstv. sjávarútvegsráðherra sem gerði það að verkum að veðum var kippt undan fyrirtækjum sem höfðu veðsett skip með rækjukvóta þannig að Byggðastofnun fékk á sig 1.100 milljóna skell og tapaði þar.

Kvótakerfið var sett á í kjölfar svörtu skýrslunnar svokölluðu sem Hafrannsóknastofnun gaf út árið 1983. Í upphafi takmarkaði kvótakerfið fjölda þeirra skipa sem gátu verið í aflamarkinu. Síðan voru gerðar umtalsverðar breytingar á kerfinu 1991 þar sem leyft var framsal. Eftir það byrjaði mikil hagræðing í greininni og aflamarksskipum og krókaaflamarksbátum fækkaði mjög mikið. Ef við lítum til undanfarinna tíu ára hefur skipunum fækkað úr rúmlega 1.700 skipum í rúmlega 600, eða um 65%. Ef við lítum alla leið aftur til 1990 hefur skipum og bátum í aflamarkskerfinu fækkað mun meira. Það er ljóst að sóknargetan hefur minnkað mikið með þessari miklu fækkun, enda var það ástæðan fyrir því að farið var út í framsalsheimildir. Framsalið var sett á til að hagkvæmar útgerðir gætu keypt þær óhagkvæmu út og vonin var að það mundi auka arðsemi í greininni og auðlindaarður færi að myndast.

Meðfram þessu að fækkaði atvinnufiskimönnum. Ef við skoðum tölur frá 1999 til dagsins í dag hefur sjómönnum fækkað um næstum því 70%. Margir mundu segja að það væri mikill galli. Þarna hefðu störf tapast en það er ekki rétt að líta þannig á málið, eins og ég mun koma að síðar, vegna þess að það var einmitt ætlunin með framsalinu og kvótakerfinu að búa til hagræðingu þannig að auðlindarenta mundi myndast.

Fyrir upptöku kvótakerfisins var stöðugt tap á greininni. Stjórnvöld gripu inn í með núllstillingu gengis þar sem kostnaði af taprekstri útgerða var velt yfir á hinn almenna borgara. Þannig var útgerðinni haldið lifandi en varla nema svo að hún rétt skrimti. Eftir að framsalið var innleitt hófst að myndast hagnaður í greininni. Síðastliðin tíu ár hefur verið gríðarmikill hagnaður í sjávarútvegi, nákvæmlega eins og menn lögðu upp með þegar þeir sögðu að loka þyrfti aðganginum að auðlindinni, koma á að hagræðingu með framsali aflaheimilda o.s.frv. Þá geta menn spurt í sambandi við störfin sem töpuðust hvort það hafi ekki verið galli. Nei, eins og ég sagði áðan hefur atvinnufiskimönnum fækkað sem er akkúrat það sem menn ætluðust til.

Eftir að auðlindarentan fór að myndast af einhverri alvöru í lok 10. áratugarins jókst hagnaður útgerðarfyrirtækja og þar sem sjómenn fá hluta af auðlindarentunni til sín vegna hlutaskiptakerfisins hækkuðu laun í sjávarútvegi mjög hratt. Til að mynda hækkuðu laun á milli áranna 1999–2008, eða á tíu ára tímabili, að raunvirði um 55%. (Gripið fram í: Já!) Allt saman hnígur þetta í sömu átt: Skipunum fækkaði, atvinnufiskimönnum fækkaði, hagnaðurinn jókst gríðarlega og launin hækkuðu. Þetta er nákvæmlega það sem við ætluðumst til með nýja fiskveiðistjórnarkerfinu árið 1991 þegar framsalið var innleitt.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um gagnrýni á greinina. Þá er sagt: Kvótinn hefur flust úr byggðunum, nýliðun er ómöguleg, allir ættu að geta stundað sjóinn og það er óréttlátt að hægt sé að selja kvótann. Hafa ber í huga að flutningur kvótans stafar fyrst og fremst af tækniframförum í greininni, bæði í veiðunum og vinnslunni. Um 1961 á Neskaupstað þar sem ég er fæddur og uppalinn þurfti um 350 sjómenn á 50 bátum til að veiða eða koma með 2.500 tonn af síld að landi. Ef við flytjum okkur til ársins 1980 til Siglufjarðar þurfti um 100 sjómenn á sex skipum til að veiða sama magn af loðnu. Að síðustu ef við lítum t.d. til Aðalsteins Jónssonar á Eskifirði eða fjölveiðiskipsins Beitis á Neskaupstað þá þarf um tíu sjómenn á einu skipi til að ná sama magni. Eins og við sjáum á þessu örlitla dæmi þarf 340 færri sjómenn til að veiða sama magn af síld eða loðnu og 49 færri báta. Það er því augljóst að mikil röskun varð í byggðunum við þetta. Þá röskun hefur fólk einmitt rakið til kvótakerfisins.

Förum aðeins yfir hvað ætti að einkenna hagkvæmt fiskveiðistjórnarkerfi. Í fyrsta lagi þarf að aðgangur að auðlindinni að vera takmarkaður. Hann þarf að vera bundinn einkaleyfum fyrir þá sem nýta auðlindina. Rétturinn til að nýta auðlindina þarf að vera því sem næst varanlegur til að aðgangsrétturinn myndi verðmæti og langtímahugsun við nýtingu auðlindarinnar sé tryggð. Í þriðja lagi þarf aðgangsrétturinn að vera framseljanlegur, þ.e. að rétturinn til að nýta auðlindina, til að hagkvæmar útgerðir geti keypt út þær óhagkvæmu. Þannig minnkar sóknargetan og offjárfestingin í fiskveiðunum og auðlindaarður verður til. Auðlindaarðurinn verður ekki til á neinn annan hátt en að fiskurinn sé sóttur með passlega miklu fjármagni eða sóknargetu og hæfilega mörgum sjómönnum.

Ef við skoðun þær breytingar sem eru boðaðar í þessum tveim frumvörpum, frumvarpi VG og frumvarpi Samfylkingarinnar, sjáum við að þessi þrjú skilyrði eru brotin. Aðgangurinn að auðlindinni er opnaður vegna þess að nú eru allt í einu orðið eftirsóknarvert að auka nýliðun í greininni, þ.e. að fjölga störfum í greininni. Auðlindaarðurinn eða auðlindarentan mun fjármagna þá fjölgun starfa og þannig mun arðinum verða sóað. Á sama hátt mun fjárfesting aukast í litlum bátum og skipum sem verða keypt til að sækja í auðlindina þannig að sóknargetan eykst.

Afleiðingin af þessu er að auðlindaarðurinn sem margir hafa viljað skattleggja og færa til ríkisins er horfinn, fiskveiðarnar orðnar óhagkvæmar og við erum aftur komin á sama stað og við vorum á 1983 þegar við þurftum að núllstilla gengið reglulega til að halda útgerðunum gangandi, þegar pólitíkusar voru með puttana í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja til að halda þeim gangandi á sama hátt. Við höfum því horfið aftur til gamla tímans. Bannið við framsali, sem er í frumvarpinu, leiðir því til óhagkvæmni.

Í þessum frumvörpum er horfið frá markaðsskipulagi yfir í ráðstjórnarskipulag. Ráðherrann fær 74 heimildarákvæði til að vasast í auðlindinni og allir tapa á endanum. Auðlindaarðinum verður sóað, sjómönnum fjölgar og laun þeirra lækka, skipum fjölgar og sóknargeta eykst sem og fjárfesting, þ.e. útgerðin verður aftur rekin með tapi og sérúrræðum misvitra stjórnmálamanna. Leiðin sem hér er boðuð er sólarlag yfir hagkvæmri útgerð á Íslandi.

Víkur þá að frumvarpi VG. Það er ljóst að í því er verið að stika þá leið sem ég hef lýst. Það sem meira er, í þessu frumvarpi er ekki eingöngu verið að hleypa í gegn veiðileyfagjaldi eða hækkun á því og nýjum flokki fiskiskipa, svokölluðum árabátaflokki, sem eru fiskiskip undir þremur rúmlestum, heldur er þar ákvæði sem færir bolfisk frá uppsjávarfyrirtækjum til fyrirtækja sem stunda eingöngu bolfiskveiðar. Það mun koma mjög hart niður á þeim byggðarlögum þar sem uppsjávarveiðar eru stundaðar í dag, þ.e. mest á Austurlandi og í Vestmannaeyjum. Leiðin mun færa bolfiskkvótann frá þessum stöðum og þangað sem eingöngu bolfiskveiðar eru stundaðar, á Vestfjörðum og Suðvesturlandi, sem er akkúrat kjördæmi hæstv. sjávarútvegsráðherra.

Ég hef engan veginn lokið máli mínu og ætla að biðja (Forseti hringir.) forseta um að setja mig á (Forseti hringir.) aftur á mælendaskrá.