139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ágæta ræðu og um margt fróðlega. Hv. þingmaður hefur kynnt sér vel málefni sjávarútvegsins enda kemur hann úr kjördæmi þar sem mörg af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hafa höfuðstöðvar sínar og starfsstöðvar. Það er því eðlilegt að við þingmenn sem störfum fyrir fólk á þeim stöðum, t.d. í Norðausturkjördæmi þar sem þúsundir einstaklinga hafa lífsviðurværi sitt af þessari atvinnugrein, látum okkur þetta mál varða.

Ég held að okkur, hv. þingmann og mig, greini ekkert á um það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli, lagt það fram eins illa búið og það er og fengið upp á móti sér alla hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þá er ég að tala um talsmenn launafólks til lands og sjávar, smábátasjómenn, útgerðina og fleiri mætti nefna, talsmenn sveitarfélaganna. Okkur er vandi á höndum þegar þetta mál er komið til 1. umr. á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því að margir kostir séu við núverandi kerfi og það höfum við framsóknarmenn einnig gert. En nú er það svo að við í Framsóknarflokknum höfum ályktað um kvótakerfið og settum fram hugmyndir okkar á síðasta flokksþingi þar sem við viðrum ýmis sjónarmið um hvernig bæta megi þetta kerfi. Mér finnst þurfa að koma fram í þessari umræðu hver stefna Sjálfstæðisflokksins er í þeim efnum, því að mér hefur stundum fundist hún misvísandi. Á ekki að breyta neinu í núverandi kerfi? Ef breyta á einhverju, hvaða breytingar á að ráðast í? Mér finnst mikilvægt að við eigum þá efnismiklu umræðu hér vegna þess að heilmikil vinna (Forseti hringir.) á eftir að fara fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd (Forseti hringir.) og því er mikilvægt að heyra sjónarmið hv. þingmanns.