139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að við getum ekki leyft okkur að láta prívatskoðanir ráða afstöðu til þessa stóra málaflokks. Það sem maður óttast ef til vill meira er heildarstefna núverandi ríkisstjórnar varðandi málaflokkinn en akkúrat skoðanir einstakra þingmanna. Þó að einna mest sé kannski að óttast skoðanir sumra frekar en annarra ætla ég ekki að gera endanlega upp á milli stjórnarliða í því.

Hv. þingmaður nefndi að málið ætti að fara til fleiri nefnda en sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Vil ég taka undir það með hv. þingmanni, í það minnsta þarf sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að leita álits annarra nefnda. Ég sit í iðnaðarnefnd og ljóst er að eins og frumvarpið lítur út er um stórkostlegt byggðamál að ræða. Af því að hv. þingmaður nefndi það, ef ég tók rétt eftir, að þjóðin byggi ekki bara á landsbyggðinni þá er það vissulega rétt athugað hjá hv. þingmanni að þjóðin býr á fleiri stöðum. En það er nú einu sinni þannig að okkur landsbyggðarfólki finnst stundum eins og það búi bara ein þjóð sunnan Holtavörðuheiðar. Það er kannski líka þess vegna sem við stöndum hér upp mörg hver og tölum af mikilli innlifun um landsbyggðina og byggðamálin. Ef við tökum sjávarútveginn út fyrir sviga, þó að við séum að ræða hann, þá veltum við því oft fyrir okkur hvernig standi á því að við búum t.d. ekki við sama vöruverð á landsbyggðinni, við sama orkuverð, svo dæmi séu tekin.

Sjávarútvegurinn, sem hefur í gegnum tíðina verið undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar, þorpin og bæirnir hafa byggst í kringum sjávarútveginn, hefur sannarlega tekið breytingum út af tækni, sérstaklega út af tækni, og ríkisvaldið hefur vissulega ekki staðið sig í því að koma með eitthvað nýtt eða þróað byggðirnar í samráði við heimamenn um hvað (Forseti hringir.) eigi að taka við í staðinn. En við hljótum að geta leyft okkur að tala okkur hás til varnar (Forseti hringir.) landsbyggðinni þegar svona óskapnaður lítur dagsins ljós.