139. löggjafarþing — 138. fundur,  31. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur ítrekað komið hér að stefnu Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum og ályktun þeirra frá síðasta flokksþingi sem var tímamótaþing hvað þetta varðar. Þar varð stefnubreyting af hálfu Framsóknarflokksins í þessum efnum sem ég fagna, og ég held að ef málið fær að þroskast enn meir í þá veruna muni Framsóknarflokkurinn, með svo góða talsmenn sem hv. þingmaður er, koma enn nær þeim sjónarmiðum sem ég sem ráðherra og ríkisstjórnin hefur hér lagt fram.

Ég vil minnast á það hér líka að eitt fyrsta verk mitt eftir þing framsóknarmanna var að óska eftir því að fulltrúar þeirra kæmu á fund ráðherra og gerðu honum vel og ítarlega grein fyrir tillögum sínum. (Forseti hringir.) Ég hlustaði á þær af mikilli athygli og vil bara (Forseti hringir.) að það komi hér fram, frú forseti.