139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn er enn við sama heygarðshornið, hafnar öllum breytingum á núverandi (Gripið fram í.) fiskveiðistjórnarkerfi. Það sem við erum að deila um held ég að (Gripið fram í.) þurfi í sjálfu sér ekkert að deila um. Það er yfirlýst af hálfu forsætisráðherra að réttast sé að þessi frumvörp gangi að lokinni vandaðri og málefnalegri umfjöllun í þinginu og þeim breytingum sem eðlilegt er að gera á málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, að þjóðin sjálf fái einfaldlega að skera úr um það hvort hún sé sátt við þá skipan mála um grundvallaratvinnuveg sinn. Þá kemur það bara í ljós. Það er þá í sjálfu sér áskilið í málsmeðferðinni að meiri hluti þjóðarinnar þurfi að styðja niðurstöðuna og löggjöfina til að hún öðlist gildi og verði að lögum. Það ætti að vera nokkuð góð trygging fyrir því að þó að aldrei verði allir sáttir (Forseti hringir.) verði tekið eins mikið tillit til sjónarmiða sem flestra til að meirihlutastuðningur meðal þjóðarinnar fáist við niðurstöðuna.