139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil svar hv. þingmanns um veiðigjaldið þannig að hann muni leggja það til í meðferð sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, þar sem við sitjum báðir, að horfið verði frá hugmyndunum í frumvarpinu um að hluti af veiðigjaldinu renni til sveitarfélaganna.

Í annan stað varðandi strandveiðarnar er það líka út af fyrir sig athyglisvert sem hv. þingmaður segir. Ég held að við í nefndinni þyrftum þá að fara ofan í það og reyna að afla upplýsinga um hverjir stunda strandveiðarnar. Það getum við gert með dæmum, við getum leitað eftir því í fjórum, fimm verstöðvum. Það er fljótlegt að tína upp hvaða bátar róa í strandveiðikerfinu, hverjir standa að því, og þá fáum við góða vísbendingu um það hvað hér er um að ræða. Ef hv. þingmaður telur til dæmis ástæðu til að bregðast við því hlýtur hv. þingmaður að flytja breytingartillögu um það.

Að öðru leyti vil ég segja þetta um afstöðu Sjálfstæðisflokksins: Það hefur margoft komið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið að margvíslegum breytingum á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni í gegnum tíðina, m.a. með því að færa til aflaheimildir til minni báta, með því að setja á byggðalegar tengingar o.s.frv. Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því í endurskoðunarnefndinni að leggja fram ákveðnar tillögur til breytinga á fiskveiðistjórnarkerfinu. (Forseti hringir.) Það er stefna okkar í sjávarútvegsmálum og hún hefur komið skýrt fram.