139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þær hugmyndir frá þingmanninum að þessar breytingar geti tengst aðildarumsókn ESB. Það er alveg ljóst að Samfylkingin fer ekki í neinar breytingar og hugmyndir nema sem eru til þess ætlaðar að þjónkast að einhverju leyti því aðildarferli sem við erum í þar. (VigH: Rétt.) Þetta er algjörlega óboðlegt, þessi tímasetning sem og að vita ekki hvað tekur við eftir 23 ár. Auðvitað þarf þetta að vera skýrt. Það var líka ein af meginniðurstöðum sáttanefndarinnar að þetta skyldi verða algjörlega skýrt til lengri tíma. Hvort tíminn á síðan að vera 15, 20 eða 25 ár skiptir kannski ekki öllu máli á meðan horft er til lengri tíma og endurnýjunartíminn er innan skynsamlegra marka þannig að við löðum hér að fjárfestingu til lengri tíma í þessari grein. (Forseti hringir.)

Ummæli forsætisráðherra eru síðan fyrir neðan allar hellur. Það er skömm að því hvernig hæstv. ráðherra hefur talað til þessarar greinar og gert lítið úr því fólki sem í henni starfar, (Forseti hringir.) talar alltaf um einhverja sægreifa sem einhverja ljóta aðila en það eru hundruð fjölskyldna, (Forseti hringir.) ef ekki þúsundir, um allt land sem byggja afkomu sína á þessari grein. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)