139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:20]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er mjög ánægjulegt að heyra þegar þingmönnum er mjög annt um stjórnarskrána og að ekki sé farið á svig við hana í hinum ýmsu þáttum. Þetta frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða lýtur einmitt að því að tryggja betur viss mannréttindaákvæði um aðgang að þessari auðlind.

Á hitt vil ég minna, að þetta er ríkisstjórnarfrumvarp, samþykkt úr ríkisstjórn. Þetta frumvarp er búið að fara fyrir þingflokka stjórnarflokkanna og fá samþykki þar og var svo lagt inn á Alþingi. Sú umræða að það standist ekki stjórnarskrá er alveg fráleit. (Gripið fram í.) Ég bið ykkur að treysta mér í þeim efnum. (Gripið fram í.) Treystið bara sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þeim (Forseti hringir.) efnum, þetta er mjög gott frumvarp, (Forseti hringir.) líka hvað þessi atriði varðar.