139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn komst nú ekki í að ræða byggðajöfnunaraðgerðir, byggðapotta eða byggðakvóta, en gerir það kannski hér á eftir.

Mér fannst það sérkennilegt á sínum tíma þegar ráðherra lýsti því yfir einhliða, án þess að það kæmi til þingsins, að byggt yrði á 20% aflareglu til næstu fimm ára og fá það síðan viðurkennt á alþjóðlegum vettvangi. Það virðist hins vegar vera sátt um það í kerfinu og talið nauðsynlegt til að geta byggt upp gæðakerfi sem tryggir ákveðinn forgang og hærra verð á mörkuðum.

Ég hef velt því fyrir mér, og spurst fyrir um það, meðal annars hjá Hafrannsóknastofnun og víðar, hvort ekki væri hægt að vera með yfirlýsingu um að við færum eftir aflareglu sem væri 20–23% og menn hefðu eitthvert svigrúm til að taka tillit til efnahagslegra aðstæðna á hverjum tíma.