139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:13]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er hárrétt athugað hjá þingmanninum sem er klókur og vitur maður, enda sjáum við að fólk hópast að honum. Í dag hefur hann fengið einn nýjan þingmann, en mér skilst að búið sé að loka félagaskiptaglugganum þannig að ég get ekki farið þangað yfir. En það er alveg hárrétt athugað hjá þingmanninum að yfirlýsing sem seðlabankastjóri í einhverju landi gefur um að frumvörp sem lögð hafa verið fram í þjóðþingi valdi honum áhyggjum nái þau fram að ganga vegna þess að þau geti ógnað bankakerfinu og fjármálastöðugleika gefur til kynna að bankastofnanir munu ekki getað fjármagnað sig á sömu kjörum og ef full vissa ríkir um hlutina. Þetta er hárrétt og það eitt og sér gerir bankakerfinu erfitt fyrir strax við framlagningu frumvarpanna.

Hvað varðar laun sjómanna er leiðinlegt að þingmaðurinn skyldi hafa misst af ræðu minni í gærkvöldi þar sem ég gerði ítarlega grein fyrir því atriði. Ég sýndi fram á hvernig meðallaun hjá atvinnusjómönnum hafa hækkað gríðarlega, um 55%, á síðastliðnum tíu árum út af kvótakerfinu eða aflamarkskerfinu, jafnframt er ljóst að þegar fleiri sjómenn koma inn í greinina lækka meðallaunin og hinni svokölluðu auðlindarentu verður þá sóað með því að halda of mörgum sjómönnum í greininni.