139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[20:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir yfirvegaða ræðu. Hann mælti af mikilli skynsemi. Hægt er að taka undir meira en minna í ræðu hv. þingmanns.

Ég er sammála því að leiðin til sátta um sjávarútveginn liggi gegnum veiðigjaldið en það hefur reyndar legið fyrir í nokkurn tíma en menn hafa, og þá sérstaklega ríkisstjórnin, ekki endilega gripið þann bolta á lofti.

Ég vil spyrja hv. þingmann þriggja spurninga:

1. Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar er ýjað að stjórnarskrárbroti. Hvaða umræðu fékk það ákvæði í þingflokki Samfylkingarinnar áður en frumvarpið var afgreitt frá þingflokknum? Töldu menn ekki ástæðu til að staldra við þessar alvarlegu athugasemdir frá fjárlagaskrifstofunni?

2. Í ljósi orða hv. þingmanns áðan í tengslum við veiðileyfagjaldið, (Forseti hringir.) má þá allt annað fara úr frumvarpinu ef við náum sátt um veiðileyfagjaldið? Má þá allt annað gossa í þessu frumvarpi sem og hinu stóra?