139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt fyrr í umræðunni verður þetta frumvarp sem nú er til umræðu ekki rætt öðruvísi en að taka hitt frumvarpið einnig til umræðu því að raunverulega á þetta frumvarp að falla úr gildi, verði það að lögum, þegar hið síðara frumvarp verður að lögum, verði það nokkurn tímann að lögum.

Það er mjög alvarlegt þegar ríkisstjórn í sjálfstæðu ríki leggur fram frumvarp sem beinlínis stríðir gegn stjórnarskrá og þarna er ég að vísa í atvinnuréttindi manna og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Samkvæmt dómum Hæstaréttar, æðsta dómstóls landsins, bera aflaheimildir mjög þess merki að vera orðnar eign þeirra aðila sem hafa áunnið sér rétt til veiðanna. Við getum ekki litið fram hjá því að svo er og það er mjög alvarlegt þegar brotið er gegn atvinnuréttindum, þá er það skýrt stjórnarskrárbrot.

Það sem hins vegar slær mann mest í þessu frumvarpi er umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar kemur fram í umsögn að þetta sem verið er að framkvæma í þessu frumvarpi, gagnvart því að ákveðin renta af auðlindagjaldinu eigi að renna til sveitarfélaganna eftir þeim ákvæðum sem um ræðir, brjóti gegn fjárstjórnarvaldi Alþingis, þeirrar stofnunar sem við sitjum á, 63 þjóðkjörnir fulltrúar, og er raunverulega verið að afsala valdi þingmanna til að setja lög, hvað þá heldur gegna því mikilvæga hlutverki að fara með fjárveitingavaldið. Hér er gerð tillaga um að þetta verði svona næstu 23 árin. Þegar dagsetningar eru skoðaðar, og hef ég komið inn á það í fyrirspurnum til þingmanna, eiga lögin, verði stærra frumvarpið að lögum, að falla sjálfkrafa úr gildi árið 2034, þ.e. 23 árum eftir gildistöku þessara laga sem við fáum líklega brátt til umfjöllunar í frumvarpsformi. Það minnir okkur á að fyrir liggur umsókn að Evrópusambandinu. Í dag voru mér veittar þær upplýsingar að þetta væri skýrt ákvæði um að þessi tvö frumvörp munu fylgja 20/20-leið Evrópusambandsins.

Ég tel þetta mjög alvarlegt, herra forseti, sér í lagi vegna þess að í hvorugu frumvarpinu er minnst á Evrópusambandið. Það er mjög alvarlegt að ríkisstjórnin skuli koma fram með frumvarp sem er sérsniðið að Evrópusambandinu án þess að minnst sé á það í frumvarpinu sjálfu eða umsögnum um það. Þetta verða þingmenn að finna út sjálfir. Það er að sjálfsögðu vinnan okkar en þetta finnst mér engu að síður alveg forkastanleg vinnubrögð. Ég minni aftur á að íslensku fiskimiðin, okkar gjöfulu fiskimið, landa 40% af heildarafla Evrópusambandsins. Það sjá allir að Evrópusambandið getur ekki án okkar fiskimiða verið. 6 þús. manns starfa í Grimsby við það eitt að vinna íslenskan fisk. Svo hóta þessir sömu aðilar löndunarbanni í makríldeilunni. Verði þeim að góðu. Okkar íslenski sjávarútvegur heldur uppi mörgum fjölskyldum bara í þessari borg sem ég vísaði í.

Það sem er athyglisvert líka er það að nú er fjármálaráðuneytið farið að vísa í greinargerð, á bls. 13 og 14, um að staða ríkissjóðs sé mjög slæm og þess vegna eigi að auka auðlindagjaldið. Ég hef ekkert á móti því að menn borgi auðlindagjald af þeim auðlindum sem eru í eigu ríkisins og þeir nota. Þegar upp er staðið er kostnaðurinn á móti hins vegar svo mikill að verði þetta frumvarp að lögum renna á fyrsta árinu einungis 700 milljónir í ríkissjóð vegna kostnaðar. Þetta er ámælisvert, herra forseti.

Nú er tími minn liðinn. Ég treysti því að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd komi saman sem fyrst til að funda um þetta mál og fái stjórnskipunarfræðinga inn í nefndina, ekki veitir af, til að skera úr um hvort þetta sé ekki klárt brot á stjórnarskrá, herra forseti. Nú kæmi lagaskrifstofa Alþingis sér vel.