139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[11:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans. Nú þegar hefur mikil gagnrýni komið fram úr öllum flokkum í þingsal á þetta frumvarp.

Ég staldra að þessu sinni og í þessu andsvari við 3. gr. frumvarpsins þar sem segir í raun að sjávarútvegsráðherra, á hverjum tíma væntanlega, geti beitt öðrum aðferðum við úthlutun aflaheimilda en að miða við heildaraflamark.

Grunnforsenda hinnar svokölluðu sáttanefndar, endurskoðunarnefndar sjávarútvegslaga, var að gengið yrði út frá því að miða við aflamark. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki vel til þess fallið í þeirri umfjöllun sem mun verða um þessa grein og aðrar í framtíðinni að ganga út frá sömu prinsippum og gert er í skýrslu (Forseti hringir.) sáttanefndarinnar sem ályktun Framsóknarflokksins byggir á.