139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég hefði ekki misskilið spurningu hv. þingmanns áðan. (LRM: Þú svaraðir henni bara ekki?) Jú, hv. þingmaður sagði áðan: (Gripið fram í.) Það sem lagt er til í frumvarpinu er að styrkja smábátaútgerð. Hún spurði hvort ég væri sammála því að það væri hagkvæmara að gera það. Þess vegna benti ég hv. þingmanni á að það væru að minnsta kosti tvö atriði sem ég sæi í fljótu bragði sem gengju í þveröfuga átt. Í fyrsta lagi væri lögð til aukafyrning á fjórar tegundir. Og hverjar eru þessar fjórar tegundir? Það eru þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Ef hv. þingmenn skoða stærstu úthlutunina, til að mynda til krókaaflamarksbáta, er hún akkúrat í þessum fjórum tegundum. Það tel ég mjög varasamt.

Ég benti líka á það sem er í frumvarpinu, að núna er bannað að leigja úr aflamarkskerfinu í krókaaflamarkskerfið. Hv. þingmenn hljóta að hafa orðið varir við þau hörðu viðbrögð sem forustumenn Landssambands smábátaeigenda hafa bent á, að það væri mjög varhugavert. Ég deili ekki skoðunum hv. þingmanns um að þar sé einmitt verið að styrkja (Forseti hringir.) smábátaútgerð, ég tel því þveröfugt farið. (LRM: Svarar ekki spurningunum.)