139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

framkvæmd launastefnu hjá stjórnsýslunni.

[13:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. 14. ágúst 2009 gaf ríkisstjórnin út tilmæli til ráðuneyta og stofnana um að lækka laun umfram 400 þús. kr. á mánuði. Stefnt var að því að ná fram 3–10% lækkun með fækkun svonefndra eininga og yfirvinnustunda. Fjármálaráðuneytið átti svo í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti að hafa forgöngu um að útfæra leiðir til að ná þessu markmiði.

Könnun Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að fjölmargar stofnanir urðu ekki við tilmælum ríkisstjórnarinnar. Nú hefur Ríkisendurskoðun gagnrýnt þessa málsmeðferð harkalega, sérstaklega hvernig ráðuneytin stóðu að því að kynna og leiðbeina um framkvæmd tilmælanna. Í mánaðaruppgjöri A-hluta ríkissjóðs fyrir apríl 2011, sem er nýjasta uppgjörið, kemur einnig í ljós að laun framkvæmdarvaldsins eru komin tæplega 1,5 milljarða fram úr áætlun. Þetta eru gríðarlega háar tölur og þetta er þvert á það sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt og þau tilmæli sem hún hefur komið á framfæri.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á þessu, hvort hún geti útskýrt það launaskrið sem virðist eiga sér stað innan stjórnsýslunnar og hvort hún ætli ekki að beita sér fyrir því að efla Alþingi, eins og alþingismenn og löggjafarvaldið eru sammála um, til móts við það vald sem framkvæmdarvaldið virðist taka sér sjálft.