139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga.

[13:49]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki að þetta mál, fjármögnun á vaxtaniðurgreiðslum upp á 12 milljarða kr. á tveimur árum sem voru greiddar út í fyrsta skipti núna 1. maí til 97 þús. einstaklinga og komu sannarlega vel fólki sem er mjög skuldugt og ekki síst ASÍ-félögunum, skuli verða að því stórmáli að það tefli kjarasamningum til þriggja ára í hættu. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir, sérstaklega af því að niðurstaðan varð að þetta yrði fjármagnað með einhverjum hætti af lífeyrissjóðunum og fjármálastofnunum. Við erum einungis að tala um hluta, 1/4, af þessari fjárhæð, 3,5 milljörðum, sem kemur í hlut þessara aðila á þessu ári.

Mér finnst vel koma til greina að skoða aðra skiptingu milli lífeyrissjóðanna og fjármálastofnana, að fjármálastofnanirnar fjármagni þá stærri hluta af þessum 3,5 milljörðum, að ekki sé skipt til helminga milli lífeyrissjóða og fjármálastofnana af því að mér sýnist sem bankarnir hafi grætt ansi vel á þessum fyrsta ársfjórðungi þessa árs. (Gripið fram í: … kröfuhafar …)