139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

aðstoð við bændur á gossvæðinu.

[13:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þau svör að hæstv. forsætisráðherra ætli að grípa til þess að láta skoða hvort það liggi ekki fljótlega fyrir. Í Eyjafjallagosinu í fyrra lærðu menn mjög hratt af þeirri reynslu. Þá kom líka ríkisstjórnin mjög fljótlega hér fram og lýsti því yfir á Alþingi að allt yrði gert sem gera þyrfti. Þá lá auðvitað fyrir að ákvörðunin um fjárframlag kæmi miklu seinna. Það var hins vegar samþykkt á ríkisstjórnarfundi að það yrði staðið við bakið á meðal annars Bjargráðasjóði. Það er ekki þörf á því í tilviki Viðlagatryggingar sem á yfir 16 milljarða í handbæru fé sem hún getur gengið að.

Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að í A-deild Bjargráðasjóðs eru um 100 milljónir. Ef tjónið er sambærilegt eða af sömu stærðargráðu í Grímsvötnum erum við væntanlega að tala um að það vanti 100 milljónir.

Það sem ég er að kalla eftir er að ríkisstjórnin taki strax þá ákvörðun að Bjargráðasjóður eigi að fara í þetta verkefni. Það er verið að skoða það á öllum bæjum og úti um allt (Forseti hringir.) þessa dagana en það er ekki gert á vegum Bjargráðasjóðs vegna þess að hann hefur ekki enn fengið skipun eða beiðni frá ríkisstjórninni um að þetta sé verkefnið hans.