139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[17:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa tjáð sig og fagna sérstaklega því framtaki hv. þm. Jóns Gunnarssonar að færa forseta og hæstv. ráðherra merki helgarinnar. Ég vil einnig taka undir áskoranir til hæstv. forseta um að gefa þingmönnum tækifæri til að taka þátt í hátíðarhöldum helgarinnar.

Þó svo að hv. þm. Kristján Möller sé allur af vilja gerður, og með eyrun úti til að reyna að bera boðskap stjórnarandstöðunnar og athugasemdir inn í þingflokka stjórnarinnar, tel ég einboðið að leggja áherslu á að hæstv. fjármálaráðherra taki þátt í þessari umræðu ef hún á að standa fram eftir kvöldi, og leggi fram mat sitt og rökstyðji athugasemdir við það frumvarp sem hæstv. samráðherra hans, sjávarútvegsráðherrann, hefur tekið á sínar herðar að leggja fram hér í þinginu.