139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hæstv. forsætisráðherra um að hún þarf ekki að hafa áhyggjur af mér. Ég er einstaklega vel að mér í Evrópurétti. Fleiri mættu kannski taka sér það til fyrirmyndar vegna þess að ég hef orðið vör við mikla vanþekkingu í þinginu. Þá vísa ég til þingmanna Samfylkingarinnar af því að mér finnst þeir oft og tíðum ekki vera nógu vel að sér í Evrópurétti. Stundum virðist ekki vera hægt að komast að kjarna málsins af því að þeir átta sig ekki á því út á hvað Evrópusambandsaðild gengur.

Það vill svo til, virðulegi forseti, að nú er allt í strandi hjá samninganefndinni sem fer með umsóknina að Evrópusambandinu vegna þess að ágreiningur er um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Hæstv. utanríkisráðherra vill fara fram úr þeirri heimild sem Alþingi gaf til að þjónka Evrópusambandinu en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra má eiga það að hann stendur í lappirnar í því máli og hvet ég hann til dáða. (Gripið fram í.)