139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:18]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisvert svar. Ef ég skil það rétt mun þetta verða þannig í framtíðinni að ef fyrirtæki sem eiga mengunarkvóta í dag þróa með sér nýja tækni þannig að þau mengi minna þá verður alltaf munur á þeim kvótum sem þau eiga og þeim kvótum sem þau nýta. Er það þá rétt skilið hjá mér að þau geti farið með það inn í evrópska viðskiptakerfið og selt það varanlega, jafnvel frá Íslandi? Fyrir það fást náttúrlega peningar og með tímanum verða þessir kvótar verðmætari vegna þess að þau gæði sem loftið er verða stöðugt takmarkaðri. Í raun og veru er, eins og ég nefndi áðan, nákvæmlega það sama að gerast og þegar aflaheimildirnar voru gefnar í upphafi.