139. löggjafarþing — 140. fundur,  3. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[18:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að kynna okkur stefnu allra flokka sem starfa á Alþingi og sjá hvar hlutirnir liggja frammi.

Fyrir það fyrsta leggur Framsóknarflokkurinn til að nýtingarsamningar verði gerðir til 20 ára með möguleika á framlengingu til fimm ára, og það þurfi að semja upp á nýtt. Ég hef gert að umtalsefni þetta með veðsetninguna sem hér hefur komið fram sem mér þykir athyglisvert, það er eitt af þeim atriðum sem þarf að skoða í nefndum þingsins hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Ég skil það því ekki þegar hv. þingmaður hjólar svona í þetta frumvarp — ég ætla að taka skýrt fram að ég hef ákveðna fyrirvara við það eins og ég hef gert grein fyrir — vegna þess að það er alveg ótrúlega líkt því sem Framsóknarflokkurinn ályktaði um. Það er næstum því eins og Framsóknarflokkurinn hafi haft drög að frumvarpi hæstv. ráðherra þegar hann var að undirbúa þessa stefnu til að leggja fram á landsfundinum, sem hefur verið samþykkt. Talað er um veðsetningartakmarkanir, pottana og um að nýtingartíminn sé 20 ár en í frumvarpinu er talað um 15 + 8 ár sem gera 23 ár eða þremur árum lengur en Framsóknarflokkurinn leggur til.